Dýrmæt stig Hamars á erfiðum útivelli – KFR og ÍBU töpuðu

Matthias Ramos Rocha skoraði sigurmark Hamars. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar náði í dýrmæt stig á útivelli í 4. deild karla í knattspyrnu í dag á meðan Uppsveitir og KFR töpuðu sínum leikjum.

Samherjar – Hamar 1-2
Hamar heimsótti Samherja á Hrafnagilsvöll í Eyjafirði í dag í hörkuleik. Samherjar komust yfir með marki úr vítaspyrnu á 26. mínútu og staðan var 1-0 í hálfleik. Hvergerðingar voru sterkari í síðari hálfleik og náðu að skora tvívegis með mínútu millibili um miðjan seinni hálfleikinn. Magnús Ingi Einarsson jafnaði á 67. mínútu og strax í næstu sókn fengu Hvergerðingar hornspyrnu. Bjarki Rúnar Jónínuson tók spyrnuna og rataði hún beint á kollinn á Matthíasi Ramos Rocha sem stangaði boltann glæsilega í netið. Fleiri urðu mörkin ekki en baráttan var mikil og fóru tíu gul spjöld á loft í leiknum. 

Kormákur/Hvöt – KFR 2-1
KFR fór einnig í langferð og heimsótti Kormák/Hvöt á Hvammstangavöll. Kacper Bielawski kom KFR yfir strax á 6. mínútu og var það eina mark fyrri hálfleiksins. Leikurinn snerist við á stuttum tíma í seinni hálfleik en Kormákur/Hvöt jafnaði metin á 71. mínútu og fjórum mínútum seinna skoruðu heimamenn sigurmarkið.

KFS – Uppsveitir 4-0
Liðsmenn ÍBU fóru einnig í ferðalag í dag, til Vestmannaeyja þar sem þeir mættu KFS. Heimamenn voru sterkari í leiknum og skoruðu tvö mörk í hvorum hálfleik án þess að Uppsveitamenn næðu að svara fyrir sig.

Hamar í toppsætinu
Í A-riðlinum eru Uppsveitir í 7. sæti með 6 stig, í B-riðlinum missti KFR Kormák/Hvöt uppfyrir sig í toppsætið með 13 stig en KFR hefur 11 stig í 3. sæti og í C-riðlinum eru Hamarsmenn í góðum málum í toppsætinu með 18 stig.

Fyrri greinHaldið upp á 150 ára afmæli Guðbjargar í Múlakoti
Næsta greinBjargað úr sjálfheldu í Hvítá