Dýrmæt stig í súginn

FSu tapaði dýrmætum stigum í kvöld þegar keppni hófst aftur í 1. deild karla í körfubolta. Blikar komu í heimsókn í Iðu og sigruðu 82-93.

Jafnræði var með liðunum þar til undir lok 1. leikhluta að FSu gerði 11-2 áhlaup og breytti stöðunni í 23-15. Heimamenn héldu forystunni allt fram á lokamínútur 2. leikhluta en Breiðablik skoraði tíu síðustu stigin í fyrri hálfleik og leiddi 39-41 í leikhléi.

FSu byrjaði með látum í síðari hálfleik gerði 10-2 áhlaup og náði sex stiga forskoti, 49-43. Blikar fylgdu þeim hins vegar eins og skugginn og náðu að jafna undir lok leikhlutans en staðan var 58-58 þegar sá fjórði hófst.

Sóknarleikur FSu var brokkgengur í upphafi 4. leikhluta. Gestirnir komust yfir þegar þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum og héldu forskotinu eftir það. FSu vörnin míglak og Blikar skoruðu 35 stig í leikhlutanum og juku forskotið jafnt og þétt. Að lokum skildu 11 stig liðin að.

Collin Pryor var stigahæstur hjá FSu með 23 stig og 10 fráköst. Ari Gylfason skoraði 18 stig, Hlynur Hreinsson 15 auk þess að senda 10 stoðsendingar, Geir Helgason skoraði 10 stig, Birkir Víðisson og Arnþór Tryggvason 4, Erlendur Ágúst Stefánsson og Svavar Ingi Stefánsson 3 og Fraser Malcom 2.

Þrátt fyrir tapið er FSu enn í 2. sæti deildarinnar, nú með 16 stig eftir 11 leiki en næstu lið á eftir eiga leik til góða á Selfyssingana.

Fyrri greinHús nötruðu og rafmagn fór af
Næsta greinKristín útnefnd íþróttamaður ársins