Dýrmæt stig í súginn í toppbaráttunni

Þór Þorlákshöfn fékk Stjörnuna í heimsókn í Domino's-deild karla í körfubolta í kvöld. Stjarnan sigraði eftir hörkuleik, 87-94.

Leikurinn tafðist um tæpar 30 mínútur eftir að einn dómara leiksins féll í hálku fyrir utan íþróttahúsið í Þorlákshöfn og meiddist á baki. Því þurfti að kalla út annan dómara frá Reykjavík.

Skakkaföllin urðu fleiri í kvöld því Mýrdælingurinn Justin Shouse, leikmaður Stjörnunnar, slasaðist illa á hendi undir lok 1. leikhluta þegar hann féll á auglýsingaskilti. Shouse var ekið alblóðugum á slysadeild þar sem saumuð voru nokkur spor í handlegginn á honum.

En að leiknum sjálfum. Hann var jafn fyrstu fimmtán mínúturnar, en undir lok fyrri hálfleiks náði Stjarnan 2-10 áhlaupi og leiddi í leikhléi, 41-49. Þórsarar náðu að minnka muninn í tvö stig í 3. leikhluta en í upphafi þess fjórða náði Stjarnan tíu stiga forskoti sem Þórsurum tókst ekki að brúa. Munurinn var þó lítill undir lokin en Stjörnumenn voru klókir og vörðu forskot sitt.

Eftir leikinn er Þór í 4. sæti með 20 stig en Stjarnan er í 3. sæti með 24 stig.

Tölfræði Þórs: Vance Hall 27 stig/7 fráköst/8 stoðsendingar, Grétar Ingi Erlendsson 15 stig/7 fráköst, Ragnar Nathanaelsson 13 stig, Emil Karel Einarsson 8 stig, Baldur Þór Ragnarsson 6 stig, Halldór Garðar Hermannsson 5 stig, Davíð Arnar Ágústsson 5 stig, Þorsteinn Már Ragnarsson 4 stig, Ragnar Örn Bragason 4 stig.

Fyrri greinÍbúarnir farga sjálfir lífrænu sorpi í Hörputurn
Næsta greinTólf þúsund varphænur fá að ganga frjálsar úti