Dusan ráðinn þjálfari Hamars

Knattspyrnudeild Hamars hefur ráðið Dusan Ivkovic sem þjálfara meistaraflokks karla. Dusan hefur getið sér gott orð sem þjálfari hérlendis á undanförnum árum.

Undanfarin fjögur ár hefur hann þjálfað hjá Fjölni í Grafarvogi og gert 2. flokk félagsins að Íslands- og bikarmeisturum. Áður var hann aðstoðarþjálfari meistaraflokks og þjálfaði 2. flokk hjá Gróttu en Sunnlendingar þekkja hann líklega best sem fyrrum leikmann Selfoss, en hann lék með Selfyssingum í 1. deildinni sumarið 2008.

Töluverðar breytingar hafa orðið á leikmannahópi Hamars síðan í fyrrasumar en félagið hefur fengið fjóra uppalda Fjölnismenn til liðs við sig, varnarmanninn Matthías Ásgeir Ramos Rocha og miðjumennina Arnór Harðarson, Guðmund Karl Þorkelsson og Kristján Stosic, en Kristján er fyrrum fyrirliði 2. flokks Fjölnis.

Reynsluboltarnir Sam Malsom, Hafþór Vilberg Björnsson og Ingþór Björgvinsson verða áfram í röðum Hamars auk efnilegra heimamanna sem eru Bjarki Rúnar Jónínuson, Stefán Þór Hannesson og Jón Bjarni Sigurðsson.

Hamar hefur einnig samið við tvo serbneska leikmenn, varnarmanninn Goran Vinduk og miðjumanninn Aleksandar Rusic en þeir hafa báðir spilað í neðri deildum í Serbíu. Að sögn Dusans gætu tveir erlendir leikmenn til viðbótar bæst við leikmannahóp Hamars áður en keppni á Íslandsmótinu í 4. deild hefst í maí.

Fyrri greinHamar sópaði Snæfelli úr veginum
Næsta greinVirkjunin styrkir afhendingaröryggi í Bláskógabyggð