Drengjaflokkur Hamars/Þórs byrjar vel

Nú hefur drengjaflokkur Hamars/Þórs í körfubolta spilað fjóra leiki og óhætt er að segja að strákarnir hafi spilað vonum framar.

Þeir hófu tímabilið á ferðalagi til Akureyrar þar sem spilað var við Þór Akureyri og höfðu Hvergerðingar öruggan sigur þar, 53-105. Þessi leikur var aldrei spennandi og spiluðu allir drengirnir frekar mikið í leiknum.

Næsti leikur hjá strákunum var gegn ÍR í Seljaskóla og má kannski segja að þeir hafi ætlað sér aðeins of mikið fyrir fram því lítið flæði var í leik liðsins og oft á tíðum virkaði þetta eins og allir ætluðu að skora fjögur stig í hverri sókn. Sigur hafðist þó 77-92 en ekki hægt að tala um mikla fegurð í þessum leik.

Þriðji leikur drengjanna var á heimavelli gegn b liði Fjölnis og þar var aftur komið smá flæði í sókn liðsins. Hamar/Þór tók snemma forystu en leikurinn endaði 98-59 þar sem allir leikmenn komu við sögu og stemminginn var við völd.

Fyrsti alvöru prófsteinn hjá liðsins var síðan við lið Fsu á Selfossi en bæði lið voru ósigruð fyrir leikinn. Úr varð hinn skemmtilegasti leikur þar sem spennan var allsráðandi. Þegar fjórði leikhluti var hálfnaður var FSu með þægilega forustu 87-78 en þá skipti Hamar/Þór um gír og vann upp muninn og gott betur. Lokatölur voru 92-96 í bráðfjörugum leik.

Fyrri greinÓlöf Eir vann Þórðarbikarinn
Næsta greinGullkistan fær stórgjöf