„Drengirnir geta verið stoltir af þessu afreki“

Lið 5. flokks Selfoss varð í fjórða sæti á Norden Cup í handbolta, gríðarsterku móti sem fram fór í Gautaborg í Svíþjóð á milli jóla og nýárs.

Selfyssingar mættu sænska liðinu Tyresö í leik um bronsið að morgni 30. desember og töpuðu honum með einu marki, 19-20, en Svíarnir leiddu í hálfleik, 7-8.

Það kviknaði seint á Selfyssingum í leiknum auk þess sem nokkuð hallaði á liðið í dómgæslunni. Einnig meiddist markahæsti leikmaður liðsins, Haukur Þrastarson, á öxl í upphitun og gat ekki beitt sér sem skyldi. Þeim vínrauðu óx þó ásmegin í seinni hálfleik en tókst ekki að brúa bilið á lokakaflanum.

Haukur Páll Hallgrímsson var markahæstur Selfyssinga í bronsleiknum með 6 mörk, Haukur Þrastar skoraði 4, Sölvi Svavarsson 3, Valdimar Jóhannsson 2 og þeir Fannar Ársælsson, Þorsteinn Freyr Gunnarsson og Aron Emil Gunnarsson skoruðu allir eitt mark.

Alexander Hrafnkelsson varði 13 skot í marki Selfoss og var með 39% markvörslu auk þess sem hann skoraði 1 mark úr vítakasti.

Örn Þrastarson, þjálfari Selfossliðsins, var ánægður með frábæra frammistöðu liðsins á mótinu. „Þetta er gríðarlega sterkt mót þar sem þú þarft að vinna titil til að fá þátttökurétt. Þessir strákar urðu Íslandsmeistarar á síðasta ári, þriðja árið í röð. Það fóru níu strákar með út og þeir lögðu mikla vinnu í undirbúning og fjáröflun fyrir mótið,“ sagði Örn í samtali við sunnlenska.is

„Strákarnir mættu á þetta mót með aðeins eitt í huga og það var að ná markmiðinu sem þeir settu sér fyrir mótið, en það var að komast í undanúrslit og spila um verðlaun. Þeir höguðu sér eins og atvinnumenn þarna úti og var ekkert annað gert en að keppa, næra sig vel og hvíla, en hlutir eins og tívolí, McDonalds og mollið voru ekki einu sinni nefndir,“ sagði Örn ennfremur en liðið tók daginn snemma allan tímann, fór í gönguferðir og tók liðkunaræfingar ásamt töflufundum.

„Þessi vinna hjá strákunum skilaði sér í mörgum frábærum leikjum og þeir sigruðu riðilinn sinn með 24 mörkum í plús. Við unnum svo frábæran sigur á gullmarki gegn stórliði Eskilstuna í 8-liða úrslitum en töpuðum með einu marki gegn ógnarsterku liði Taastrup frá Danmörku í undanúrslitum sama dag. Það var gríðarlega svekkjandi því strákarnir áttu svo sannarlega skilið að vinna þann leik en voru óheppnir. Danirnir unnu svo úrslitaleikinn með miklum mun og höfðu lítið fyrir honum en eini leikurinn sem þeir lentu í vandræðum í var gegn baráttuglöðum Selfossdrengjum,“ sagði Örn og bætti við að Selfossliðið hafi samt náð markmiði sínu, sem var að spila um verðlaun.

Þrátt fyrir að bronsið hafi ekki farið um hálsinn á Selfyssingunum segir Örn að liðið hefði alveg getað gert tilkall til gullmedalíunnar á mótinu en þeir sýndu það að þeir áttu fullt erindi á mótið.

„Mótið var gríðarlega skemmtilegt í alla staði og frammistaða liðsins frábær. Það sem mætti helst taka út úr þessu er hversu góð liðsheildin var, og hversu margir leikmenn voru að skila af sér bæði glimrandi sóknarleik og varnarleik og markvörslu. Foreldrahópurinn sem stendur á bak við þá er einnig góður, en níu foreldrar/farastjórar voru með í för sem ég held að sé algjört einsdæmi, ég tala nú ekki um svona yfir jólin. Drengirnir voru sínu bæjarfélagi til mikils sóma og geta verið stoltir af þessu afreki hjá sér sem er, svona eftir á að hyggja, mjög stórt. Framtíðin er björt á Selfossi, svo mikið er víst,“ sagði Örn að lokum.

Frammistaða liðsins vakti mikla athygli hér heima en sýnt var beint frá leikjum liðsins á netinu og tengdust hátt í 300 ip-tölur netútsendingunni auk þess sem bloggsíða liðsins fékk hátt í 7.000 lesningar í heildina.

Sé heildartölfræði liðsins á mótinu skoðuð má sjá að Haukur Þrastarson var langmarkahæstur með 57 mörk. Haukur Páll skoraði 16 mörk, Sölvi 13, Bergsveinn 10, Þorsteinn Freyr 8, Valdimar og Aron Emil 7 og Fannar 3. Alexander varði 68 skot og var samtals með 41% markvörslu og Haukur Þrastar varði 2 skot og var með 50% markvörslu.


Strákarnir fengu að fara í verslunarferð að mótinu loknu. sunnlenska.is/Örn Þrastarson


Liðsmynd í varabúningnum sem Gullfosskaffi og TRS gáfu strákunum fyrir mót. sunnlenska.is/Jóhann Valdimarsson


Þjálfararæðan í klefanum rétt fyrir undanúrslitaleikinn. sunnlenska.is/Jóhann Valdimarsson

TENGDAR FRÉTTIR:
Selfoss í undanúrslit á Norden Cup
Selfoss spilar um bronsið

Fyrri greinÞakkir frá sjúkraflutningamönnum
Næsta greinSkuldir og tekjur aukast