Draumurinn rættist hjá Hergeiri

Þrír ættliðir. Hergeir Grímsson, Grímur Hergeirsson og Hergeir Kristgeirsson með Íslandsbikarinn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

„Mér líður mjög vel, það er erfitt að lýsa þessari tilfinningu. Þetta er búinn að vera draumur hjá mér mjög lengi, bara síðan ég byrjaði að æfa handbolta. Að vinna titil hérna heima á Selfossi. Að gera þetta núna fyrir framan þetta fólki, fyrir framan allan bæinn… þetta er ólýsanlegt,“ sagði Hergeir Grímsson, fyrirliði Selfoss, eftir að Selfyssingar urðu Íslandsmeistarar í handbolta í kvöld.

Selfoss vann 35-25 og einvígið gegn Haukum 3-1. Þetta er í fyrsta sinn sem Selfyssingar verða Íslandsmeistarar í boltaíþrótt í meistaraflokki og Hergeir fékk þann heiður að lyfta bikarnum í leikslok.

„Það sýndi sig svo vel í þessu einvígi hvað Selfyssingar geta verið sterkir saman. Það standa allir saman í þessu verkefni. Ég keyrði í gegnum bæinn í dag og það var annar hver maður í vínrauðu og búið að flagga allstaðar. Þetta var bara fáránlegt,“ sagði Hergeir en vildi þó ekki meina að stuðningsmennirnir hafi sett of mikla pressu á liðið fyrir leikinn í kvöld.

„Við ætluðum að vinna þennan leik, eins og alla aðra leiki. Að sjálfsögðu var meiri pressa á okkur í kvöld heldur en í síðustu leikjum. Maður var alveg byrjaður að hugsa, hvað ef? Ef við vinnum þá verðum við Íslandsmeistarar, ef við töpum þá ókei við þurfum að fara aftur á Ásvelli. Við þurftum bara að halda okkur niðri á jörðinni og mér fannst það takast mjög vel hjá okkur í dag. Við spiluðum allan leikinn mjög vel.“

Selfyssingar kafsigldu Haukana í kvöld í annars jöfnu einvígi fram að þessu. Hvað skildi á milli í kvöld?

„Haukarnir spiluðu töluvert fleiri leiki en við í úrslitakeppninni. Þeir spiluðu oddaleik bæði í átta liða úrslitum og undanúrslitum á meðan við sópuðum báðum einvígjunum hjá okkur. Þannig að þeir voru eflaust orðnir þreyttari en við. Það telur alveg eitthvað. En við erum allir í toppstandi og hausinn á okkur var rétt stilltur og að sjálfsögðu vinnum við í andlega þættinum. Allt þjálfarateymið er duglegt að halda okkur niðri á jörðinni og með góðar æfingar, bæði fyrir hausinn og líkamann,“ sagði Hergeir stoltur að lokum.

Fyrri greinBikarinn yfir brúna!
Næsta greinGuðni forseti sendir Selfyssingum heillaóskir