Draumamark Hauks tryggði tíu Selfyssingum stig

Selfyssingar gerðu 2-2 jafntefli við topplið Leiknis í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld þegar liðin mættust á JÁVERK-vellinum á Selfossi. Leikurinn var vægast sagt fjörugur og vafaatriðin mörg.

Leiknismenn byrjuðu leikinn af krafti og áttu bæði sláar og stangarskot áður en dró til meiri tíðinda. Besta færi Selfyssinga fékk Ragnar Þór Gunnarsson á tíundu mínútu þegar hann hirti boltann af varnarmanni og komst í gott skotfæri en Eyjólfur, Tómasson, markvörður Leiknis varði vel í horn.

Á 30. mínútu fengu Selfyssingar aukaspyrnu á hægri kantinum sem Þorsteinn Daníel Þorsteinsson lyfti boltanum hárfínt yfir varnarpakkann og þar datt knötturinn fyrir fætur Luka Jagacic sem renndi sér á hann og skoraði af öruggi. Nokkuð gegn gangi leiksins.

Tveimur mínútum síðar slapp Andri Björn Sigurðsson einn innfyrir Leiknisvörnina en missti boltann of langt frá sér og Eyjólfur náði að handsama hann.

Á 35. mínútu dæmdi annar aðstoðardómara leiksins síðan Leikni jöfnunarmark. Andri Stefánsson átti hörkuskot fyrir utan teig vinstra megin, boltinn fór í þverslána og stöngina og þaðan út og virtist ekki fara yfir marklínuna – nema frá sjónarhorni aðstoðardómarans, sem er víst það eina sem telur.

Ekki batnaði hagur Selfyssinga á 40. mínútu þegar Einar Ottó Antonsson fékk sitt annað gula spjald fyrir tæklingu og var sendur í kalda sturtu. Sannarlega gult spjald en Einar hafði fengið annað gult snemma leiks, fyrir sína fyrstu tæklingu í leiknum, þar sem hann fór beint í boltann.

Dramatíkin í fyrri hálfleik var ekki búin því Leiknismenn fengu vítaspyrnu á lokasekúndu fyrri hálfleiks þar sem dómarinn sakaði líklega Geir Kristinsson um bakhrindingu innan vítateigs. Hilmar Halldórsson fór á punktinn og skoraði af öryggi.

Leiknismenn sóttu stíft í upphafi síðari hálfleiks og Þorsteinn Daníel bjargaði meðal annars á línu á 50. mínútu. Selfyssingar komust varla fram yfir miðju fyrsta korterið í síðari hálfleik en á 63. mínútu áttu þeir fína sókn upp vinstra megin, boltinn barst fyrir markið utan teigs þar sem Haukur Ingi Gunnarsson kom aðvífandi og hamraði boltann á lofti í netið. Frábært mark og fögnuður Selfyssinga ósvikinn.

Leiknir hélt áfram að sækja og þegar leið á leikinn voru brotnaði hver sóknaraldan af annarri á varnarmúr Selfyssinga. Í hjarta varnarinnar fór miðvörðurinn Geir Kristinsson fremstur í flokki ásamt Birki Péturssyni sem var að spila sinn fyrsta deildarleik fyrir Selfoss og báðir voru þeir frábærir á lokakaflanum.

Leiknismenn fengu nokkur hörkugóð færi undir lokin en Selfossvörnin hélt og heimamenn náðu þarna í mikilvægt stig í botnbaráttunni. Selfoss er í níunda sæti deildarinnar með 22 stig, fimm stigum frá falli. Næstu leikir liðsins eru á útivelli gegn BÍ/Bolungarvík, sem er í 10. sæti og heima gegn KV sem er í 11. sæti.

Fyrri greinBifhjól fældu hest – Þrjú ökklabrot
Næsta greinKFR og Hamar sigruðu – Helgi skoraði fjögur