Dramatískur sigur Selfyssinga

Atli Ævar Ingólfsson skoraði sjö mörk í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann dramatískan sigur á Stjörnunni í úrvalsdeild karla í handbolta á Selfossi í kvöld. Atli Ævar Ingólfsson skoraði sigurmark Selfoss þremur sekúndum fyrir leikslok, 31-30.

Jafnt var á öllum tölum fyrstu tíu mínúturnar en þá náðu Selfyssingar þriggja marka forskoti, 6-3. Stjarnan jafnaði 10-10 þegar skammt var eftir fyrri hálfleiks en staðan var 14-13 í leikhléi.

Stjarnan hafði frumkvæðið framan af seinni hálfleik og náði mest tveggja marka forskoti, 18-20. Selfoss komst yfir aftur og við tók æsispennandi lokakafli þar sem Stjarnan jafnaði 30-30 þegar 17 sekúndur voru eftir af leiknum. Selfoss tók leikhlé og í  lokasókninni gekk allt upp og Atli Ævar kláraði leikinn.

Atli Ævar var markahæstur Selfyssingar með 8 mörk ásamt Hauki Þrastarsyni sem skoraði 8/1. Guðjón Baldur Ómarsson skoraði 6, Hergeir Grímsson 5/3, Árni Steinn Steinþórsson 3 og Magnús Öder Einarsson 1.

Einar Baldvin Baldvinsson varði 13 skot í marki Selfoss og var með 36% markvörslu en Sölvi Ólafsson varði 2 skot og var með 27% markvörslu.

Selfyssingar eru nú í 3. sæti deildarinnar með 11 stig, þremur stigum á eftir Haukum sem eru í toppsætinu.

Fyrri greinÞór áfram í bikarnum – Selfoss úr leik
Næsta greinFáðu þér sæti!