Dramatískur sigur FSu

FSu lagði Þór Akureyri í tvíframlengdum leik í 1. deild karla í körfubolta í kvöld, 104-99. FSu kom til baka undir lok leiks eftir að hafa lent 20 stigum undir.

Liðin mættust í Iðu og strax í 1. leikhluta var útlit fyrir jafnan baráttuleik. Sú spá fauk út í veður og vind eftir skelfilega byrjun FSu í 2. leikhluta þar sem Þór náði 21-3 leikkafla og breytti stöðunni úr 24-26 í 27-47. FSu klóraði aðeins í bakkann á síðustu þremur mínútum 2. leikhluta og staðan í hálfleik var 40-55.

Baráttan hélt áfram í 3. leikhluta en vendipunktur leiksins var um hann miðjan þegar einn af burðarásum Þórsliðsins, Ólafur Torfason, fékk brottrekstrarvillu. Varnarleikur Þórsara veiktist mikið við það auk þess sem þrek þeirra virtist þverra hraðar en FSu piltanna.

FSu át upp forskot Þórsara og þegar tæpar fimm mínútur voru eftir af leiknum setti Field niður góðan þrist til að jafna, 77-77. FSu komst síðan yfir og hefðu getað skorað sigurkörfuna í síðustu sókn leiksins en tvær tilraunir fóru í súginn og staðan eftir 40 mínútur var 84-84.

Framlengingin var æsispennandi en Þórsarar jöfnuðu með þriggja stiga körfu, 93-93, þegar rúm hálf mínúta var eftir. Richard Field fékk tíma og rúm til að skora sigurkörfuna utan teigs en aftur geigaði lokaskotið.

Í 2. framlengingu voru Þórsarar sprungnir og FSu uppskar auðveldar körfur á lokakaflanum sem skilaði þeim sigrinum að lokum.

Richard Field var að vanda stigahæstur hjá FSu með 43 stig og 16 fráköst. Valur Orri Valsson skoraði 26 stig og Orri Jónsson 15.

Hjá Þór var Konrad Tota atkvæðamestur með 31 stig og14 fráköst. Óðinn Ásgeirsson skoraði 18 stig og tók 11 fráköst og Ólafur Torfason kom næstur honum með 17 stig. M

ýrdælingurinn Björgvin Jóhannesson lék rúmar 6 mínútur fyrir Þórsara án þess að komast á blað en Selfyssingurinn Hjalti Magnússon sat á varamannabekknum allan tímann.