Dramatískt jafntefli gegn Skautafélaginu

Jón Jökull Þráinsson skoraði fyrir Stokkseyri. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það var heldur betur boðið upp á dramatík þegar Stokkseyri mætti Skautafélagi Reykjavíkur á útivelli í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Stokkseyringar komust yfir í fyrri hálfleik með marki frá Gunnari Flosa Grétarssyni og í upphafi seinni hálfleiks fengu þeir vítaspyrnu sem Jón Jökull Þráinsson skoraði örugglega úr.

Staðan var 0-2 allt fram á 87. mínútu að heimamenn minnkuðu muninn. Þeir herjuðu grimmt að Stokkseyrarvörninni í kjölfarið og uppskáru jöfnunarmark á þriðju mínútu uppbótartíma. Stokkseyringar voru mjög ósáttir við dómaratríóið í jöfnunarmarkinu og höfðu mikið til síns máls þegar þeir heimtuðu rangstöðu.

Dómaranum varð þó ekki haggað og niðurstaðan 2-2 jafntefli, þannig að Stokkseyri er áfram í 7. sæti B-riðilsins með 4 stig en SR er í 5. sæti með 7 stig.

Fyrri greinFjórir leikmenn Selfoss í U23 landsliðinu
Næsta greinSkrítin blanda af gjaldkera og hænsnabónda