Dramatískt gegn toppliðinu

Ægismenn töpuðu 4-3 þegar þeir mættu toppliði ÍR á útivelli í 2. deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi.

ÍR-ingar komust yfir á 43. mínútu og leiddu 1-0 í hálfleik en bættu svo við öðru marki á upphafsmúnútum seinni hálfleiks.

Í stöðunni 2-0 girti Þorlákshafnarliðið sig í brók og náði að skora þrjú mörk á tólf mínútna kafla. Daniel Kuczynski skoraði á 68. mínútu og skömmu síðar hafði Jonathan Hood náð að skora tvívegis.

Þar með var ekki öll sagan sögð. ÍR náði að jafna 3-3 þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum og á fjórðu mínútu uppbótartíma náðu þeir að kreista fram sigurmark.

Ægir er áfram í 11. sæti deildarinnar með 14 stig þegar fjórar umferðir eru eftir. Næstu leikir liðsins eru gríðarmikilvægir, gegn KV á heimavelli og KF á útivelli. KV er í 10. sæti með 17 stig og KF í botnsætinu með 6 stig.