Dramatík, með stóru D-i, á Akureyri

Selfoss tapaði 4-3 þegar liðið heimsótti Knattspyrnufélag Akureyrar í 1. deild karla í dag. Eftir rólegan fyrri hálfleik fengu áhorfendur dramatík í meira lagi í þeim síðari.

Fyrri hálfleikur var rólegur en heimamenn skoruðu eina mark hálfleiksins á 11. mínútu. Það var sjálfsmark frá Þorsteini Daníel Þorsteinssyni, boltinn barst fyrir mark Selfoss þar sem Þorsteinn hitti boltann illa og setti han í þaknetið. KA menn áttu álitlegri sóknir í fyrri hálfleik og Selfyssingar björguðu einu sinni á línu en staðan í leikhléinu var 1-0.

Síðar hálfleikur var miklu fjörugri, og rúmlega það. Strax á 49. mínútu átti Sindri Snær Magnússon stangarskot úr aukaspyrnu og mínútu síðar jafnaði Selfoss metin. Juan Martinez átti þá skot að marki sem fór í KA-mann og inn – annað sjálfsmark leiksins.

KA-fékk svo dæmda vítaspyrnu á 56. mínútu eftir þvögu í vítateig Selfyssinga uppúr hornspyrnu og var ekki greinilegt á hvað dómarinn var að flauta. Reyndar hefðu KA-menn ekki átt að fá umrædda hornspyrnu og fyrirliði Selfoss, Andy Pew, uppskar gult spjald fyrir að mótmæla hornspyrnudómnum.

Hvað um það, KA-menn fóru á punktinn og breyttu stöðunni í 2-1. Á 63. mínútu var Martinez heppinn að hanga inni á vellinum þegar hann braut á sóknarmanni KA sem var að sleppa í gegn.

Á 67. mínútu bætti KA við þriðja markinu eftir hornspyrnu og nú var staðan orðin svört fyrir Selfyssinga. Þeir lögðu þó ekki árar í bát og héldu áfram að berjast en KA-menn þjörmuðu áfram að gestunum eftir þriðja markið. Á 81. mínútu minnkaði Sindri Snær muninn eftir góðan sprett frá Magnúsi Inga Einarssyni og fimm mínútum síðar jafnaði Javier Zurbano eftir þvögu í vítateig KA. KA menn töldu sig reyndar hafa bjargað á línu en dómarinn dæmdi boltann inni og voru KA menn brjálaðir yfir ákvörðuninni – en bæði lið voru virkilega ósátt við dómaratríóið í leiknum.

Bæði lið lögðu kraft í sóknarleikinn á lokamínútunum og ætluðu sér þrjú stig en lokamarkið féll KA-megin á lokamínútu leiksins. Þá var komið að Selfyssingum að taka brjálæðiskast og Andy fékk sitt annað gula spjald fyrir mótmæli. Mínútu áður hafði Magnús Ingi einnig fengið tvö gul spjöld í röð og þannig það rauða. Nokkrum andartökum síðar flautaði dómarinn magnaðan síðari hálfleik af.

Selfyssingar eru nú í 8. sæti deildarinnar, þremur stigum frá fallsæti.

Fyrri greinJafnt hjá Ægi – Hamar tapaði í markaleik
Næsta greinVeikur ferðamaður á Fimmvörðuhálsi