Ægir missti af mikilvægum stigum í toppbaráttu 2. deildar karla í knattspyrnu í kvöld þegar liðið heimsótti Völsung á Húsavík.
Fyrir leik voru bæði lið með jafnmörg stig í 3.-4. sæti í eltingarleik við Þrótt Reykjavík í 2. sætinu.
Völsungur byrjaði betur í leiknum og komst yfir á 7. mínútu en það reyndist eina mark fyrri hálfleiks. Seinni hálfleikurinn var markalaus allt fram á 78. mínútu þegar Anton Breki Viktorsson jafnaði fyrir Ægi. Það var hins vegar boðið upp á dramatík á lokakaflanum og á sjöttu mínútu uppbótartímans tókst Völsungi að skora sigurmarkið. Lokatölur 2-1.
Ægir er áfram í 4. sæti deildarinnar með 29 stig en Völsungur er í 3. sæti með 32 stig. Ægir á leik til góða á Völsung.