Dramatík í Suðurlandsslagnum

Gylfi Dagur Leifsson, leikmaður Uppsveita og Andrés Karl Guðjónsson, leikmaður Árborgar, ræða málin. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það var mikil dramatík í Suðurlandsslag Uppsveita og Árborgar í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Á sama tíma vann Hamar öruggan sigur á Smára.

Leikur Uppsveita og Árborgar bauð upp á allt sem derby-leikir geta boðið upp á; frábær tilþrif, tæklingar, kýtingar, vafasama dóma og rauð spjöld. Árborgarar komust yfir á 20. mínútu þegar Andrés Karl Guðjónsson skallaði boltann í netið eftir langt innkast. Uppsveitamenn tóku í kjölfarið völdin á vellinum en gekk illa að finna færin. Þeir fengu hins vegar aukaspyrnu á 40. mínútu sem var frábærlega útfærð og uppúr henni negldi Kristinn Sölvi Sigurgeirsson boltanum í þverslána og inn, 1-1 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn byrjaði fjörlega og Uppsveitir fengu vítaspyrnu eftir þrjár mínútur þegar Trausti Rafn Björnsson braut á Aroni Frey Margeirssyni innan vítateigs. Besti maður vallarins, Quico Vano, fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi. Uppsveitir ógnuðu áfram en þegar leið á seinni hálfleikinn dró úr krafti þeirra og Árborgarar tóku yfir leikinn. Aron Fannar Birgisson jafnaði með stórglæsilegu marki á 80. mínútu og hann var nálægt því að bæta öðru marki við skömmu síðar þegar hann átti þrumuskot í stöngina. Árborg sótti meira á lokakaflanum og í uppbótartímanum skoraði Andrés Karl aftur, eftir hornspyrnu og tryggði Árborg 2-3 sigur. Eftir að lokaflautan gall hitnaði heldur betur í kolunum á milli liðanna en æsingnum lauk með því að Sveinn Kristinn Símonarson, leikmaður Árborgar, fékk tvö gul spjöld og þar með rautt.

Þetta var fyrsta tap Uppsveita í deildinni í sumar en liðið situr örugglega í toppsætinu með 18 stig, eins og Árborg sem er í 2. sæti en Uppsveitir hafa mun betra markahlutfall.

Öruggt hjá Hamri
Hamarsmenn voru sterkari aðilinn þegar þeir heimsóttu Smára í Fagralund í Kópavogi. Atli Þór Jónasson hélt uppteknum hætti í markaskorun og kom Hamri yfir á 32. mínútu og staðan var 0-1 í hálfleik. Sören Balsgaard tvöfaldaði forystu Hamars um miðjan seinni hálfleikinn og Atli skoraði svo þriðja markið af vítapunktinum sjö mínútum fyrir leikslok. Lokatölur 0-3 og Hamar situr nokkuð þægilega í 2. sæti D-riðilsins með 17 stig en Smári er á botninum með 1 stig.

Það var metmæting á Flúðavöll í kvöld en 236 áhorfendur mættu á leik Uppsveita og Árborgar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinÆgismenn réttu kúrsinn
Næsta grein22 sækja um starf sveitarstjóra