Dramatík í Hveragerði

Hamar og Árborg skiptu með sér stigunum í viðureign topp- og botnliðsins í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur voru 1-1.

Leikurinn var jafn framan af en Hamar átti fyrstu færin í leiknum þegar Vilhjálmur Vilhjálmsson og Ragnar Valberg Sigurjónsson reyndu sitthvorn skallann að marki úr ágætu færi en báðar tilraunirnar fóru yfir.

Fyrsta hættulega færi leiksins fékk Árborg á 20. mínútu þegar Jón Auðunn Sigurbergsson átti góðan skalla að marki eftir frábæra sendingu frá Alfie Kamara en Björn Aðalsteinsson í marki Hamars átti stórkostlega markvörslu.

Þremur mínútum síðar átti Ragnar Valberg góðan skalla eftir sendingu frá Einari Má Þórissyni en Steinar Stefánsson í marki Árborgar varði. Hamar átti ágæta spretti þegar rúmur hálftími var liðinn af leiknum og fengu þrjú fín færi en það besta átti Vilhjálmur sem skaut í þverslána á marki Árborgar uppúr hornspyrnu.

Guðmundur Garðar Sigfússon átti svo frábært skot að marki Hamars á 45. mínútu en aftur varði Björn meistaralega út við stöng.

Staðan var 0-0 í hálfleik en fjörið jókst í seinni hálfleik. Strax á upphafsmínútum hans slapp Alexander Lúðvíksson þrívegis innfyrir vörn Árborgar en Steinar sá við honum tvívegis og eitt skotið fór rétt framhjá.

Á 62. mínútu dró til tíðinda þegar Ágúst Örlaugur Magnússon, fyrirliði Hamars, fékk sitt annað gula spjald þegar hann stökk með olnbogann upp í skallaeinvíki. Ágúst var sendur í sturtu og voru Hamarsmenn virkilega óhressir með þennan dóm, líkt og fleiri dóma í leiknum.

Andartökum síðar fóru Árborgarar í sókn sem Jón Auðunn Sigurbergsson rak endahnútinn á með glæsilegu skoti og boltinn söng í netinu.

Þrátt fyrir að vera manni færri voru Hamarsmenn síst lakari aðilinn og fengu þeir tvö ágæt færi í kjölfarið en inn fór boltinn ekki. Hvergerðingar vildu svo fá vítaspyrnu þegar boltinn fór í hönd Árborgarmanns innan teigs en dómarinn sá ekki ástæðu til að dæma.

Leikurinn virtist vera að fjara út þegar Hvergerðingar fengu aukaspyrnu úti á hægri kantinum í uppbótartímanum. Boltinn barst inn á teiginn og eftir klafs féll hann fyrir fætur Vilhjálms Vilhjálmssonar sem skoraði af stuttu færi.

Mikill hiti var í liðunum á lokamínútunum enda hafði dómarinn misst öll tök á leiknum og áður en yfir lauk hafði Eiríkur Elvy fengið rautt spjald hjá Árborg.

Hamar er á toppi deildarinnar með 26 stig en Höttur er í 2. sæti með 24 stig og á leik til góða. Árborg fór uppfyrir ÍH eftir úrslit kvöldsins með 6 stig en ÍH er með 5 stig og á leik til góða. Árborg vantar níu stig til að ná í skottið á Völsungi sem er í 10. sæti.

Fyrri greinÞægilegur sigur Selfyssinga
Næsta greinÞað var allt fullkomið