Dramatík í Breiðholtinu – Selfoss í fallsæti

Staða Selfyssinga í Inkasso-deild karla í knattspyrnu er slæm eftir tap gegn ÍR í fallbaráttuslag í Breiðholtinu í kvöld. ÍR tryggði sér sigurinn á 5. mínútu uppbótartíma.

„Það er erfitt að segja eitthvað hvað gerist. Við bara klúðrum þessum leik. Við erum með unnin leik í höndunum og gerðum það sem átti að gera þangað til það var orðið erfitt þá þorum við ekki að klára þetta,” sagði Gunnar Rafn Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við fotbolti.net eftir leik.

ÍR byrjaði betur í leiknum en það voru Selfyssingar sem voru fyrri til að skora. Eftir aukaspyrnu á 18. mínútu féll boltinn fyrir fætur Hrvoje Tokic í vítateignum og hann skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið. Axel Sigurðarson jafnaði fyrir heimamenn á 32. mínútu eftir mistök í vörn Selfoss og staðan var 1-1 í leikhléi.

Í upphafi síðari hálfleiks voru heimamenn áfram sterkari en Selfyssingar hentu blautri tusku í andlitið á þeim með marki á 56. mínútu. Eftir hornspyrnu stökk Guðmundur Axel Hilmarsson manna hæst í teignum og stangaði knöttinn í netið, 1-2.

Leikurinn virtist vera að fjara út og ÍR fékk engin teljandi færi fyrr en í blálokin. Á 80. mínútu fékk Gilles Ondo beint rautt spjald fyrir brot og manni fleiri hresstust ÍR-ingar í kjölfarið.

Á lokamínútunni jafnaði ÍR eftir góða sókn með marki Jóns Gísla Ström en þar með var ekki öll sagan sögð. ÍR fylgdi markinu eftir af krafti og fengu vítaspyrnu á 95. mínútu. Úr henni skoraði Jón Gísli og andartökum síðar flautaði dómarinn til leiksloka.

Fyrri grein„Tilveran á það til að taka óvænta stefnu“
Næsta greinViðbygging við grunnskólann sett í hönnunarferli