Dramatík á lokamínútunum

KFR tapaði 5-3 fyrir Sindra í dag þegar liðin mættust í A-riðli 3. deildar á Hornafirði.

Rangæingar komust í 0-2 í fyrri hálfleik en Boban Jovic og Gunnar Ragnarsson skoruðu mörkin.

Heimamenn mættu ferskari inn í seinni hálfleikinn og minnkuðu muninn á 61. mínútu með sjálfsmarki Jóhanns Böðvarssonar. Sjö mínútum síðar jafnaði Kristinn Guðlaugsson fyrir Sindra.

Staðan var 2-2 fram á 83. mínútu en þá skoruðu liðin fjögur mörk á tíu mínútna kafla. Sindri komst í 4-2 með tveimur mörkum á tveimur mínútum. Atli Arnarson skoraði á 83. mínútu og mínútu síðar skoruðu Rangæingar annað sjálfsmark. Gunnar Ragnarsson klóraði í bakkann á 92. mínútu og minnkaði muninn í 4-3 en mínútu síðar skoraði Kristinn Guðlaugsson fimmta mark Sindra og innsiglaði sigurinn.

KFR er áfram á botni A-riðils, án stiga, en Sindri er í 3. sæti riðilsins með 9 stig.

Fyrri greinÆgir missti tvö stig í uppbótartíma
Næsta greinHvernig staður er Listasafn Árnesinga?