Dramatík þegar Hartmann skaut Árborg í úrslitakeppnina

Knattspyrnufélag Árborgar tryggði sér sæti í úrslitakeppni 4. deildar karla í knattspyrnu í dag með dramatískum sigri á Hrunamönnum í lokaumferðinni á Selfossvelli.

Árborg varð að sigra Hrunamenn og treysta á að topplið Ýmis myndi vinna Skallagrím í Borgarnesi, en Skallagrímur sat í 2. sæti fyrir lokaumferðina. Tvö lið úr hverjum riðli komast í úrslit.

Það leit ekki vel út fyrir Árborg í hálfleik, Skallagrímur leiddi þá 1-0 gegn Ými, og staðan á Selfossvelli var 1-1. Bergsteinn Bjarnason kom Hrunamönnum yfir á 27. mínútu en Tómas Kjartansson jafnaði fyrir Árborg fjórum mínútum síðar.

Í síðari hálfleik sóttu Árborgarar látlaust en gekk ekkert að skapa færi. Þegar 25. mínútur voru eftir bárust þau tíðindi úr Borgarnesi að Ýmir hafi komist yfir gegn Skallagrím og Árborgarar þurftu því eitt mark til þess að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni.

Þrátt fyrir ítrekaðar sóknir gekk ekkert hjá Árborg gegn góðri vörn Hrunamanna fyrr en í uppbótartíma að brotið var á Ingva Rafni Óskarssyni innan vítateigs. Hartmann Antonsson fór á punktinn og skoraði af öryggi og tryggði Árborg 2-1 sigur.

Árborg lauk því riðlakeppninni með 30 stig í 2. sæti riðilsins, einu stigi á undan Skallagrím og Létti. Árborg mætir Augnabliki úr Kópavogi í 8-liða úrslitum en spilað er heima og heiman og samanlögð úrslit ráða.

Í B-riðlinum tapaði KFR á útivelli gegn Elliða, 3-2. KFR endaði í 4. sæti B-riðilsins með 26 stig.

Fyrri greinVilja að Árborg stofni ungbarnaleikskóla
Næsta greinSelfoss sigraði á Ragnarsmótinu