Hamar sigraði GG á útivelli í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld á sama tíma og KFR gerði jafntefli við Smára á Hvolsvelli.
Søren Balsgaard var í stuði í liði Hamars en hann skoraði öll mörk liðsins í 1-3 sigri á GG í Grindavík. Fyrsta mark leiksins skoraði hann úr vítaspyrnu á 40. mínútu og fjórum mínútum síðar kom Balsgaard Hamri í 0-2. Seinni hálfleikurinn var markalaus allt fram á 90. mínútu að Balsgaard innsiglaði þrennuna en GG klóraði í bakkann með marki úr vítaspyrnu í uppbótartímanum.
Smári úr Kópavogi var í heimsókn á Hvolsvelli og þar komust gestirnir yfir á 9. mínútu. Heiðar Óli Guðmundsson jafnaði fyrir KFR fimm mínútum síðar og Bjarni Þorvaldsson sá til þess að KFR leiddi 2-1 í hálfleik en hann skoraði á síðustu mínútu fyrri hálfleiks. Allt stefndi í sigur KFR í seinni hálfleiknum en Smáramönnum tókst að jafna metin á lokamínútu leiksins og niðurstaðan varð 2-2 jafntefli.
Staðan í D-riðlinum er nú þannig að Hamar er í 2. sæti með 11 stig en KFR er í 4. sæti með 9 stig.