Donna og Summer í Selfoss

Kvennalið Selfoss í knattspyrnu hefur fengið til liðs við sig sóknarmanninn Donna-Kay Henry og varnarmanninn Summer Williams.

Henry er 24 ára gömul og lék í fyrra sína fyrstu landsleiki fyrir landslið Jamaica. Williams er 25 ára miðvörður sem hefur meðal annars leikið á Írlandi.

Þær voru báðar í leikmannahópi Selfoss í Lengjubikarnum gegn Fylki í gærkvöldi og gerði Henry sér lítið fyrir og skoraði öll mörk Selfoss í 3-1 sigri.

“Donna-Kay er hröð og tæknilega mjög góð. Summer er miðvörður frá Bandaríkjunum en hún var í UCLA á sínum tíma og er sterkur leikmaður,” sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is. Áður var markvörðurinn Chante Sandiford gengin í raðir Selfoss. “Við verðum ekki með fleiri útlendinga í ár og kjarninn í liðinu verður áfram stór og góður hópur af heimakonum.”

Fyrri greinKristín og Elfa ráðnar skólastjórar
Næsta greinAlvarlegt umferðarslys á Biskupstungnabraut