Dómaranám með fjarkennslu

Körfuknattleikssamband Íslands býður upp á dómaranámskeið í janúar og fer það fram með fjarkennslu.

Nemendur skrá sig til KKÍ og fá sendan aðgang að námskeiðinu sem þeir geta unnið á sínum hraða þegar þeim hentar, hvar sem er á landinu.

Námskeiðinu lýkur svo á verklegu prófi í febrúar þar sem reynt verður að koma til móts við hvar þátttakendur búa.

Það er um að gera fyrir alla sem hafa áhuga á körfuknattleik að skrá sig og fá betri skilning á reglunum. Einnig geta þeir sem áhuga hafa farið að dæma leiki á vegum dómaranefndar KKÍ.

„Við keyrðum reynslunámskeið í fjarnámi í samstarfi við Keili á haustönninni og heppnaðist það frábærlega. Keilir heldur utanum tæknilega hlutann en námskeiðið hentar öllum, verðandi dómurum, þjálfurum, leikmönnum og almennum áhugamönnum,“ sagði Kristinn Óskarsson körfuknattleiksdómari í samtali við sunnlenska.is en hann er höfundur námsefnis og stýrir námskeiðinu með Jóni Bender.

„Nemendur geta tekið fræðilega hlutann heima hjá og ef næg þátttaka næst þá verður verklegi hlutinn tekinn sem næst þátttakendum. Þannig væri t.d. ekkert mál að vera með verklegt nám á Selfossi ef næg þátttaka verður á Suðurlandi,“ sagði Kristinn ennfremur.
Skráningafrestur er til 11. janúar og er þátttökugjald 4000 kr. og skal það greiðast við skráningu.

Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna hér.

Fyrri greinGrétar Ingi valinn íþróttamaður Ölfuss
Næsta greinÍsólfur Gylfi heimsótti nýársbarnið