Dofri Snorrason í Selfoss

Samkvæmt heimildum sunnlenska.is hafa Selfyssingar hafa fengið KR-inginn Dofra Snorrason að láni og mun hann leika með liðinu í Pepsi-deildinni út tímabilið.

Dofri er 22 ára gamall og getur leikið bæði sem hægri bakvörður og kantmaður en samkvæmt heimildum sunnlenska.is hyggst Logi Ólafsson, þjálfari, nota Dofra á hægri kantinum.

Dofri er uppalinn KR-ingur og hefur hann leikið 33 deildarleiki fyrir félagið. Hann var lánaður til Víkings sumarið 2010 og lék þrettán leiki með liðinu í 1. deildinni. Hann spilaði 17 leiki fyrir KR í Pepsi-deildinni í fyrrasumar og var þeim gríðarlega mikilvægur á lokasprettinum í deildinni. Hann hefur komið við sögu í sjö deildarleikjum KR í sumar.

Dofri hefur leikið þrjá U17 landsleiki og fjóra leiki fyrir U21 liðið.