Dímon sigraði stigakeppni félaganna

Arnheiður B. Einarsdóttir, formaður Dímonar, Sandra Björk Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Hamars og Lovísa Ragnarsdóttir frá Geysi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Að venju voru veitt verðlaun á Héraðsþingi HSK sem fram fór í Hvolnum á Hvolsvelli í gær. Verðlaunaafhendingin var hins vegar með einfaldara sniði vegna sóttvarnaráðstafana.

Íþróttafélagið Dímon var stigahæsta félag ársins eftir harða keppni við Ungmennafélag Selfoss. Dímon sigraði heildarstigakeppni héraðsmótanna með 154 stig, en Selfoss varð í 2. sæti með 148 stig.

Unglingabikar HSK fór til æskulýðsnefndar Hestamannafélagsins Geysis en þar er unnið mjög öflugt ungmennastarf. Mikil þátttaka var á viðburðum Geysis árið 2019 og meðal annars algjör sprenging í þátttöku á almennum reiðnámskeiðum.

Foreldrastarfsbikarinn fékk badmintondeild Íþróttafélagsins Hamars. Stjórn deildarinnar er nær eingöngu skipuð foreldrum iðkenda og löng hefð er fyrir því að foreldrar sjái um fjáraflanir deildarinnar. Þá eru foreldrar duglegir að fylgja börnum sínum á mót og aðstoða yngstu keppendurna á mótum.

Sögu- og minjanefnd HSK útnefnir árlega öðling ársins og að þessu sinni var það frjálsíþrótta- og blakmaðurinn Jason Ívarsson, Ungmennafélaginu Samhygð, sem hefur um áratuga skeið verið virkur í félagsmálum íþróttahreyfingarinnar.

Jason Ívarsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinFimm vilja stýra Goðheimum
Næsta greinSagði upp vinnunni og seldi rabarbara og orma