Dímon-Hekla HSK meistari kvenna í 1. og 2. deild

Seinni hluti héraðsmóts HSK í blaki karla og kvenna var spilaður í síðastliðinni viku. Hrunamenn sigruðu í karlaflokki en Dímon-Hekla sigraði bæði í 1. og 2. deild í kvennaflokki.

Karlarnir spiluðu í Hveragerði mánudaginn 10. mars og í þetta skiptið voru öll sex liðin mætt sem skráðu sig í haust. Eftir fyrri hlutann voru Hrunamenn með forystuna með 14 stig en Samhygð og Hamar fylgdu þeim eftir með 12 og 10 stig hvort.

Leikar hófust klukkan rúmlega 18, en bíða þurfti eftir Samhygðarmönnum úr Reykjavík þar sem þeir fuku út af veginum á leiðinni. Engan sakaði og allir mættu þeir tilbúnir í slaginn. Leikirnir spiluðust vel og unnust þeir allir 2-0 utan einn sem fór í odda, sem var ágætt því annars hefði kvöldið eflaust orðið mjög langt þar sem 15 leikir voru á dagskrá.

Í þessum seinni hluta fengu Hrunamenn 15 stig, eða fullt hús stiga, Hamar 11 og Samhygð 9. Þegar báðar umferðirnar voru lagðar saman kom í ljós að Hamar og Samhygð voru jöfn að stigum, með 21 stig. Því þurfti að horfa til hrinuhlutfallsins og urðu lokaúrslitin þau að Hamar hafnaði í 3. sæti með 21 stig og hrinuhlutfall upp á 2,143. Samhygð varð í 2. sæti einnig með 21 stig en 2,333 í hrinuhlutfall en blakkóngar síðustu ára á héraðsmótum urðu Hrunamenn sem unnu sinn fimmtánda héraðsmeistaratitil í röð.

Lokaröðin í karlakeppninni varð þessi:
1. Hrunamenn 29 stig
2. Samhygð 21 stig
3. Hamar 21 stig
4. UMFL 13 stig
5. Selfoss 3 stig
6. Dímon 0 stig

Báðar deildirnar hjá konunum spiluðu síðustu leiki sína á Hellu fimmtudaginn 13. mars. Ljóst var að mikil barátta var um efsta sætið í efri deildinni að loknum fyrri hlutanum en þrjú lið voru jöfn að stigum Dímon-Hekla 1, Hamar 1 og UMFL 1. Í neðri deildinni átti Hvöt einnig raunhæfan möguleika á því að skáka Dímon-Heklu 2 úr efsta sætinu. Tvö lið í efri deildinni urðu að draga sig úr keppni, en hvorki Garpur né UMFL 2 náði að manna sín lið og fengu þá leiki sem þau áttu eftir skráða 0-2 tap. Það vildi þó svo „heppilega“ til að hin 4 liðin í deildinni áttu öll eftir að spila einn leik við annað þessara liða, og því hélst stigastaðan hjá liðunum og ekkert lið græddi umfram önnur á „sigrinum“.

Einu leikirnir sem eftir voru í efri deildinni voru því á milli Dímon-Heklu 1 og Hrunakvenna 1 og svo Hamars 1 og UMFL 1. UMFL 1 tók 2 hrinur á móti Hamri 1 sem tók eina og komust þær þá upp fyrir Hamar 1 að stigum. Dímon-Hekla 1 innsiglaði hins vegar sigur sinn í deildinni með 2-0 sigri á Hrunakonum og hljóta því titilinn héraðsmeistarar HSK í blaki kvenna 1. deild 2014.

Í neðri deildinni urðu úrslitin ekki ljós fyrr en í síðustu leikjunum. Hvöt spilaði gegn Hamri 2 og vann þann leik 2-0 og fengu 3 dýrmæt stig. Hrunakonur 3 spiluðu gegn Dímon-Heklu 2 og unnu fyrstu hrinuna. Dímon-Hekla var þó sterkari í síðari tveimur hrinunum og tryggði sér sigurinn í 2. deildinni. Þær hampa því titlinum Héraðsmeistarar HSK í blaki kvenna 2. deild 2014 og tvöfaldur sigur hjá Dímon-Heklu staðreynd. Hvöt varð í öðru sæti og dýrmæt hrina sem Hrunakonur 3 höfðu af Dímon-Heklu 2 fleytti þeim að Hamri 2 í stigum og hrinuhlutfalli og höfðu þær 3. sætið á betra stigahlutfalli.

Lokaröð liða í 1. deild kvenna:
1. Dímon-Hekla 1 13 stig
2. UMFL 1 12 stig
3. Hamar 1 11 stig
4. Hrunakonur 1 6 stig
5. Garpur 2 stig
6. UMFL 2 1 stig

Lokaröð liða í 2. deild kvenna:
1. Dímon-Hekla 2 11
2. Hvöt 9
3. Hrunakonur 3 4
4. Hamar 2 4
5. Hrunakonur 4 2

Ef litið er yfir skrá yfir sigurvegara héraðsmótanna frá upphafi má sjá að í karlaflokki hafa Hrunamenn unnið titilinn átján sinnum, þarf af fimmtán sinnum í röð á síðustu árum. Samhygð hefur unnið titilinn tólf sinnum, þar af sex sinnum í röð 1982 til 1987. Laugdælir unnu mótið sjö sinnum á fyrstu átta árum þess frá 1974 til 1981, Hamar hefur unnið þrívegis og Mímir einu sinni, árið 1977.

Hjá konunum hefur Hamar unnið mótið sextán sinnum en sigurganga Hvergerðinga var nánast óslitin á árunum 1996 til 2011. ÍKÍ og Mímir hafa unnið fjórum sinnum hvort félag og Dímon tvívegis, en þetta er í fyrsta skipti sem nafn Heklu er ritað á bikarinn. Önnur félög sem hafa unnið mótið eru Umf. Hveragerðis og Ölfuss (1982-1984), Laugdælir (1981), Selfoss (1991) og Hrunakonur (2013).

Fyrri greinVantar tuttugu á Hraunið
Næsta greinStefnumótun landsmótanna rædd í kvöld