Dean Martin tekur við Selfoss

Selfyssingar hafa ráðið Dean Martin til þess að þjálfa karlalið félagsins í knattspyrnu í Inkasso-deildinni út þessa leiktíð.

„Þetta er frábært tækifæri til að komast aftur í fótbolta eftir að hafa verið úti í Kína í sex mánuði. Ég hlakka til. Þetta er krefjandi verkefni en um leið skemmtilegt. Þetta er erfið deild og leikmenn þurfa að leggja sig fram til þess að vinna leiki. Það er ekki flóknara en það,“ sagði Dean í samtali við sunnlenska.is eftir undirritunina.

Spurður að því hvað einkenni hann sem þjálfara var svarið einfalt: „Bara að vinna leiki, fyrst og fremst. Við þurfum að vera þétt lið og hafa gaman að þessu, spila með ástríðu og löngun og gefa allt í þetta.“

Gunnar Borgþórsson sagði starfi sínu lausu eftir tapleikinn gegn ÍR síðastliðið fimmtudagskvöld en Selfyssingar höfðu hraðar hendur við að finna nýjan þjálfara og skrifaði Dean undir samning í hádeginu í dag.

Næsti leikur Selfyssinga er á heimavelli á miðvikudagskvöld þegar topplið HK kemur í heimsókn.

Dean Martin starfaði síðast sem aðstoðarþjálfari kínverska kvennalandsliðsins. Hann hefur sinnt þjálfun víða, m.a. hjá KA, ÍA, Breiðabliki og HK auk þess sem hann hefur séð um hæfileikamótun ungra leikmanna hjá KSÍ.

Dramatískir síðustu dagar
Jón Steindór Sveinsson, formaður knattspyrnudeildar Selfoss, segir að hlutirnir hafi gengið hratt og vel um helgina eftir dramatíska síðustu daga.

„Eftir að Gunnar sagði upp störfum þá tókum við góða umræðu og nafn Dean Martin var efst á blaði hjá okkur. Við heyrðum í honum og fengum mjög jákvæð viðbrögð og erum mjög ánægð með að fá hann til starfa. Hann hefur mikla reynslu, bæði sem leikmaður og þjálfari og við höfum heillast af hans aðferðum. Við viljum meina að hann muni gefa liðinu nýjan innblástur,“ sagði Jón við undirritunina.

Fyrri greinÍbúafjöldi Þorlákshafnar margfaldast um verslunarmannahelgina
Næsta greinKristín skipuð sýslumaður