Dean Martin kveður Selfoss

Dean Martin. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnudeild Selfoss og Dean Martin hafa komist að samkomulagi um að Dean láti af störfum sem þjálfari meistaraflokks karla eftir um það bil fimm ár í starfi.

Dean Martin tók við liði Selfoss í erfiðri stöðu um mitt tímabil 2018 en þá sat liðið 11. sæti í 1. deildarinnar. Ekki tókst að forða liðinu frá falli og eftir tvö tímabil í 2. deildinni stýrði Dean liðinu aftur upp í 1. deildina með glæsibrag. Sumarið 2021 endaði liðið í 8. sæti og í 9. sæti árið eftir. Niðurstaða tímabilsins í ár var mikil vonbrigði og féll liðið um deild og mun leika í 2. deild næsta sumar.

Í tilkynningu frá knattspyrnudeild Selfoss er Dean þakkað fyrir ánægjulegt samstarf og þar kemur fram að á þessum fimm árum hafi hann gefið mörgum ungum og efnilegum leikmönnum tækifæri í meistaraflokki og þeir öðlast dýrmæta reynslu sem þeir munu búa að á sínum knattspyrnuferli. Margir þeirra hafa fest sig í sessi sem lykilmenn liðsins.

„Þessi fimm ár hafa verið frábær. Ég hef kynnst svo mikið af frábæru fólki í kringum félagið og fengið að þjálfa frábæra knattspyrnumenn, ég hef elskað hverja einustu mínútu hérna. Það hefur verið frábært að fylgjast með leikmönnum koma upp úr yngri flokkum og sjá þá þroskast, vaxa og dafna sem leikmenn í meistaraflokki. Ég mun koma til með að sakna þess frábæra fólks sem ég hef fengið að kynnast og starfa með,” segir Dean í tilkynningunni frá knattspyrnudeildinni.

Fyrri greinLjósmyndasýning í bakgarðinum
Næsta greinFjórða tap Selfoss í röð