Dauft yfir nágrannaslagnum

FSu og Hamar áttust við í 1. deild karla í körfubolta í Iðu á Selfossi í kvöld. Hamar sigraði 68-85 í virkilega bragðdaufum leik.

Heimamenn byrjuðu betur og komust fljótlega í 11-2 og þá sást loksins líf hjá Hamri. Staðan var 20-15 að loknum 1. leikhluta. Hamar skoraði fimm fyrstu stigin í 2. leikhluta og jafnaði, 20-20, en eftir það var jafnræði með liðunum þó að Hamar væri skrefinu á undan. Staðan var 29-33 í hálfleik eftir dapran fyrri hálfleik þar sem liðin tóku lítið á því í sókninni.

Þriðji leikhluti var kaflaskiptur en Hamar náði 14-3 spretti fljótlega og komst þá í 40-54. FSu minnkaði muninn aftur niður í níu stig en Hamar skoraði fimm síðustu stigin í leikhlutanum og staðan var 49-63 þegar sá fjórði hófst.

FSu minnkaði muninn niður í átta stig í upphafi síðasta fjórðungsins en Hamarsmenn létu ekki slá sig út af laginu og héldu heimamönnum frá sér. Munurinn var sjö stig þegar tvær og hálf mínúta voru eftir af leiknum en Hamar skoraði síðustu tíu stigin og vann öruggan sigur.

Frammistaða Hvergerðinga var ekkert sérstök í leiknum og FSu hefði átt að þjarma meira að þeim enda veitir Selfyssingum ekki af stigunum í botnbaráttunni. Leikurinn í kvöld var líklega með því daprasta sem liðin hafa sýnt í vetur og bar þess ekki mikil merki að um grannaslag væri að ræða.

Halldór Gunnar Jónsson var stigahæstur hjá Hamri með 18 stig og þeir Lárus Jónsson, Bjarni Rúnar Lárusson og Mikael Kristjánsson skoruðu allir tíu stig.

Steven Crawford skoraði 12 stig og tók 13 fráköst fyrir FSu. Kjartan Kjartansson skoraði 11 og þeir Orri Jónsson og Sigurður Orri Hafþórsson skoruðu báðir tíu stig en Sigurður Orri er nýlega genginn í raðir FSu frá KFÍ.