Dauft yfir Árborgurum

Knattspyrnufélag Árborgar tapaði fyrir Reyni í Sandgerði í 2. deild karla í knattspyrnu í dag, 3-0.

Fyrri hálfleikur var jafn en Árborgarar fengu fyrsta færið eftir um fimmtán mínútna leik þegar Reynismenn björguðu á línu frá Erlingi Ingasyni eftir góða sókn. Eftir þetta skiptust liðin á að sækja en Reyni gekk betur að finna glufur á vörn Árborgar og áttu þeir nokkur ágæt færi áður en þeir komust yfir á 32. mínútu.

Staðan var 1-0 í hálfleik og Árborgarar voru mun meira með boltann í upphafi seinni hálfleiks en fundu ekki glufur á þéttri vörn Reynis. Heimamenn komust svo í 2-0 á 63. mínútu með marki úr skyndisókn en það var fyrsta almennilega sókn þeirra í seinni hálfleik. Annað markið dró þróttinn úr Árborgarliðinu og rúmum tíu mínútum síðar bættu Reynismenn þriðja markinu við.

Síðasta korterið gerðu Árborgarar hins vegar harða hríð að marki Reynis án þess þó að markvörður heimamanna þyrfti að taka á honum stóra sínum.

Árborg er sem fyrr á botni deildarinnar með 4 stig.