Dapurt gegn Djúpmönnum

Gonzalo Zamorano og félagar komu boltanum ekki framhjá Brenton Muhammad í marki Vestra. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar náðu sér ekki á strik þegar Vestri frá Ísafirði kom í heimsókn á Jáverkvöllinn í kvöld, í 1. deild karla í knattspyrnu. Þrátt fyrir að spila manni fleiri nær allan seinni hálfleikinn kom Selfoss boltanum ekki í netið og Vestri sigraði 0-1.

Selfoss byrjaði leikinn af krafti og ógnaði fyrstu tíu mínúturnar. Eftir það tóku Vestramenn leikinn yfir og ef ekki væri fyrir góðar markvörslur Stefáns Þórs Ágústssonar hefðu hlutirnir litið verr út fyrir heimamenn í hálfleik. Vestri komst yfir á lokamínútu fyrri hálfleiks, eftir lélega sendingu út úr Selfossvörninni náði Deniz Yaldir boltanum og lyfti honum yfir Stefán sem var framarlega í teignum.

Hlutirnir eru fljótir að breytast í boltanum og þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik fékk Yaldir sitt annað gula spjald og Vestramenn því manni færri megnið af seinni hálfleiknum. Þeir féllu aftar á völlinn og lögðu rútunni þar og Selfyssingar fundu engar leiðir í gegnum vörn Vestra. Svo dapur var sóknarleikur Selfyssinga að besta færi liðsins var misheppnuð sending Þórs Llorens Þórðarsonar inn á teiginn, utan af miðjum velli, sem markmaður Vestra sló með naumindum yfir þverslána.

Tapið í kvöld þýðir það að Selfoss gefur toppsætið eftir og rúmlega það. Grótta og Fylkir unnu sína leiki í kvöld og fara uppfyrir Selfoss, sem situr nú í 3. sæti með 18 stig.

Fyrri greinSigurhæðir eru framúrskarandi úrræði
Næsta greinKÁ lokaði á Stokkseyringa