Danskur dagur í Þorlákshöfn

Daniel Mortensen fór á kostum í kvöld. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Íslandsmeistarar Þórs unnu öruggan sigur á Breiðabliki í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld. Það var búist við stórskotahríð, enda tvö sprækustu sóknarlið deildarinnar á ferðinni og svo fór að 252 stig voru skoruð í leiknum, en Þór sigraði 136-116.

Þórsarar keyrðu upp hraðann í upphafi leiks og náðu strax góðu forskoti. Staðan í hálfleik var 77-54. Leikurinn var jafnari í seinni hálfleik en Þórsarar héldu Blikum í þægilegri fjarlægð og voru fagmannlegir í öllum sínum aðgerðum.

Fáir voru þó fagmannlegri en Daninn Daniel Mortensen, sem átti gjörsamlega frábæran leik fyrir Þór, hann skoraði 47 stig og tók 13 fráköst en framlagseinkunn hans í leiknum var 55. Ronaldas Rutkauskas átti sömuleiðis mjög góðan leik og þeir Luciano Massarelli, Kyle Johnson og Glynn Watson skiluðu allir góðu dagsverki.

Þórsarar eru áfram í toppsæti deildarinnar, nú með 26 stig en Blikar eru í 9. sæti með 14 stig.

Tölfræði Þórs: Daniel Mortensen 47/12 fráköst, Luciano Massarelli 21/7 stoðsendingar, Kyle Johnson 20/7 fráköst, Ronaldas Rutkauskas 18/14 fráköst, Glynn Watson 18/7 stoðsendingar, Ragnar Örn Bragason 6/5 stoðsendingar, Tómas Valur Þrastarson 4, Emil Karel Einarsson 2.

Fyrri greinNý Ölfusárbrú tekin í notkun 2025
Næsta greinSelfyssingar sterkir í seinni hálfleik