Danska landsliðið fær verðuga keppni

Margir bestu hlauparar landsins verða samankomnir í Hveragerði um helgina þar sem Salomon Hengill Ultra fer fram í ellefta sinn. Ljósmynd/Bernhard Kristinn

Utanvegahlaupið Salomon Hengill Ultra Trail hefst í dag í Hveragerði en hlaupið hefur síðustu ár verið stærsta utanvegahlaup landsins.

Alls voru 1.033 hlauparar skráðir í hlaupið í fyrradag en þá var skráningu ekki lokið.

Danska landsliðið í utanvegahlaupum er komið til landsins og keppir á morgun í 26 km brautinni. Heimsókn danska landsliðsins er hluti af undirbúningi þeirra fyrir Evrópumótið í utanvegahlaupum sem fer fram á Kanaríeyjum í byrjun júlí. Liðið mun jafnframt nota Hengilssvæðið til æfinga.

Max Boderskov einn liðsmanna danska liðsins er Íslendingum að góðu kunnu en hann vann Hvítasunnuhlaup Hauka sumarið 2019. Liðin eru skipuð fjórum hlaupurum, bæði í karla og kvennaflokki, og þarna eru engir aukvisar á ferðinni því meðal fljótustu Dananna eru nöfn á borð við Christian Nørfelt, Stine Bækgaard Olsen og Begitte Hansen.

Friðleifur Friðleifsson, umsjónarmaður íslenska landsliðsins og tæknilegur ráðgjafi Salomon Hengils Ultra, hafði milligöngu um komu liðsins til Íslands. „Ég hef verið í góðu sambandi við þjálfara Dananna í nokkur ár enda við að vinna að sama verkefninu með utanvegalandslið þjóðanna. Svo vildi svo skemmtilega til að við vorum báðir í sama maraþoninu í Hannover í vor þar sem þessa hugmynd komst á skrið,“ segir Friðleifur um tilurð heimsóknarinnar.

„Mér sýnist dönsku hlaupararnir fá verðuga keppni í 26 km hlaupinu; Andrea Kolbeinsdóttir, Íris Anna Skúladóttir og Þórólfur Ingi Þórsson, landsliðsfólk Íslands, eru öll skráð í 26 km hlaupið. Þá er landsliðsfólki Anna Berglind Pálmadóttir, Sigurjón Ernir Sturluson og Þorsteinn Roy Jóhannesson að keppa í 53 km hlaupinu. Þau eru öll að hefja undirbúning fyrir Heimsmeistaramótið í utanvegahlaupum sem fer fram í Tælandi í nóvember,“ bætir hann við.

Hluti dönsku landsliðsmannanna sem mæta til leiks um helgina.
Fyrri greinGuðmundur Kr. sæmdur heiðursfélaganafnbót
Næsta greinForsetinn heimsótti Skaftárhrepp