Daníel og Ingibjörg taekwondofólk ársins

Taekwondosamband Íslands hefur valið Daníel Jens Pétursson og Ingibjörgu Erlu Grétarsdóttur taekwondofólk ársins. Bæði keppa þau fyrir Umf. Selfoss.

Ingibjörg Erla hefur verið fremsta taekwondokona landsins í yngri flokkum um árabil. Hún keppir nú í fullorðinsflokk með landsliðinu. Þetta er í þriðja sinn sem hún er valin taekwondokona ársins.

Síðastliðið ár keppti Ingibjörg á sex sterkum alþjóðlegum mótum, þar á meðal HM í Kóreu, EM unglinga á Kýpur og NM í Danmörku. Árangur Ingibjargar var mjög góður á árinu og hennar besti hingað til. Ingibjörg er Norðurlandameistari í sínum flokki og náði hún einnig gullverðlaunum á Scandinavian Open í Danmörku í haust. Einnig var hún hársbreidd frá því að ná verðlaunasæti á EM unglinga í Kýpur þar sem einungis munaði einu stigi að hún kæmist í úrslitakeppni um verðlaunasæti.

Ingibjörg æfir nú stíft alla daga vikunnar í undirbúningi fyrir síðasta úrtökumótið fyrir Ólympíuleikana í London á næsta ári en með góðum árangri þar gæti hún tryggt sér sæti á leikunum.

Daníel Jens hefur verið í fremstu röð taekwondo manna á Íslandi um árabil, er fastamaður í landsliðinu og hefur unnið til fjölda verðlauna.

Daníel var frá æfingum með landsliðinu fyrri hluta ársins en kom mjög sterkur inn á haustmánuðum. Hann keppti á mjög sterku móti, Scandinavian Open í Danmörku þar sem hann vann gull og var jafnframt valinn maður mótsins.

Daníel er yfirþjálfari taekwondodeildar Umf. Selfoss.