Daníel með fernu – Stokkseyringar töpuðu

Daníel Rögnvaldsson skoraði fjögur mörk fyrir Hamar sem valtaði yfir Mána í lokaumferð 4. deildar karla í knattspyrnu í dag. Stokkseyri tapaði á sama tíma á útivelli.

Lokatölur á Grýluvelli urðu 10-1 en veislan byrjaði strax á 7. mínútu. Örlaugur Magnússon kom Hamri þá yfir og tíu mínútum síðar skoraði Stefán Jónsson. Daníel bætti tveimur mörkum við fyrir leikhlé og staðan var 4-0 í hálfleik.

Logi Geir Þorláksson kom Hamri í 5-0 á fyrstu mínútum seinni hálfleiks áður en gestirnir náðu að minnka muninn. Hermann Ármannsson breytti stöðunni í 6-1 en fimm mínútum síðar var Daníel búinn að skora tvö mörk og staðan orðin 8-1.

Tómas Aron Tómasson og Hans Sævar Sævarsson bættu við mörkum fyrir Hamar á 73. og 75. mínútu en fleiri urðu mörkin ekki.

Stokkseyringar manni fleiri í klukkutíma
Stokkseyri heimsótti Létti í Breiðholtið á sama tíma. Eyþór Gunnarsson kom Stokkseyringum yfir strax á 3. mínútu en heimamenn jöfnuðu metin mínútu síðar og voru komnir í 2-1 á 5. mínútu.

Léttir komst í 3-1 á 31. mínútu en á 35. mínútu minnkaði Þórhallur Aron Másson metin úr vítaspyrnu en þá voru Stokkseyringar orðnir manni fleiri eftir að einum leikmanna Léttis hafði verið vísað af velli.

Staðan var 3-2 í hálfleik en manni fleiri tókst Stokkseyringum ekki að svara fyrir sig. Heimamenn bættu hins vegar við tveimur mörkum á lokamínútum leiksins og lokatölur urðu 5-2.

Hamar endaði í 4. sæti A-riðils 4. deildar með 24 stig en Stokkseyri lauk keppni í 5. sætinu með 9 stig.

Fyrri greinGríðargóður útisigur Ægismanna
Næsta greinHergeir besti sóknarmaður Ragnarsmótsins