Daníel með þrennu gegn Mídasi

Karlalið Hamars valtaði yfir Mídas þegar liðið hóf leik í C-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu á Leiknisvellinum í Breiðholti í gærkvöldi.

Tómas Hassing kom Hamri í 0-1 undir lok fyrri hálfleiks og staðan var 0-1 í leikhléi. Tómas var aftur á ferðinni á 60. mínútu en síðan tók Daníel Rögnvaldsson við markaskorarakeflinu og skoraði tvö mörk í röð fyrir Hamar.

Mídas náði að minnka muninn í 1-4 á 81. mínútu en Daníel var ekki hættur og innsiglaði 1-5 sigur Hamars með þriðja marki sínu á lokamínútu leiksins.

Þetta var fyrsti leikur Hamars í riðlinum en liðið á eftir að mæta Ísbirninum, Augnabliki og Hvíta riddaranum í riðlakeppninni.

Fyrri greinAðsent: Ungt fólk og lýðræði á Hótel Selfossi
Næsta greinGanga 3 km leið að flug­vélarflakinu