Dalvíkingar sterkari gegn Hamri

Hamar heimsótti Dalvík/Reyni á Dalvíkurvöll í dag í 2. deild karla í knattspyrnu. Heimamenn sigruðu 4-2 í fjörugum leik.

Heimamenn léku undan vindi í fyrri hálfleik og voru beittari framan af leik. Staðan var orðin 1-0 eftir átta mínútur en aðeins mínútu síðar var Örn Rúnar Magnússon óheppinn að jafna ekki metin þegar hann skaut í þverslána og yfir úr góðu færi í teignum.

Dalvík komst í 2-0 á 17. mínútu eftir klafs í teignum og heimamenn kláruðu svo leikinn fimm mínútum síðar þegar markvörður Dalvíkur sendi langa sendingu innfyrir vörn Hamars á félaga sinn sem slapp einn í gegn og skoraði.

Ágúst Örlaugur Magnússon minnkaði muninn í 3-1 á 25. mínútu með marki úr vítaspyrnu en bæði lið áttu nokkur tækifæri það sem eftir lifði fyrri hálfleiks, m.a. slapp Andy Pew einn innfyrir á móti markverði en setti boltann framhjá.

Hamar byrjaði betur í seinni hálfleik án þess þó að skapa sér færi. Þegar leið á jafnaðist leikurinn og Dalvíkingar bættu við fjórða marki sínu beint úr aukaspyrnu á 85. mínútu.

Í uppbótartíma fengu Hamarsmenn aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Dalvíkur, há sending inn á teig þar sem Aron Smárason skallaði boltann í netið.