Dagur, Stefán og Fjóla stigahæst á héraðsmóti í frjálsum

Héraðsmót HSK í frjálsíþróttum var haldið á Selfossi á tveimur kvöldum í síðustu viku. Keppendur frá átta aðildarfélögum HSK tóku þátt og þá voru nokkrir gestaþátttakendur frá Kötlu, ÍR og Fjölni.

Selfyssingar unnu stigakeppni félaga með 255 stig og hlutu bikar að launum, Þjótandi varð í öðru með 61 stig og Þór í því þriðja með 45 stig.

Veitt voru verðlaun fyrir stigahæsta karl og konu á mótinu. Dagur Fannar Einarsson Umf. Selfoss og Stefán Narfi Bjarnason Umf. Þjótanda voru stigahæstu keppendur í karlaflokki með 27 stig og stigahæsta kona Fjóla Signý Hannesdóttir Umf. Selfoss með 33 stig.

Sindri Freyr Seim Sigurðsson úr Heklu bætti fimm ára gamalt HSK met Fannars Yngva Rafnasonar í 200 metra hlaupi 15 ára þegar hann kom í mark á 24,04 sek, en gamla metið var 24,24. Þá jafnaði Sindri HSK metið í langstökki í sama aldursflokki með stökki upp á 6,21 metra. Styrmir Dan Steinuunnarson stökk 6,21 m í Gautaborg árið 2014.

Hildur Helga Einarsdóttir Selfossi bætti svo ársgamalt met sitt í spjótkasti með 600 gr. spjóti í flokki 16 – 17 ára, en hún kastaði lengst 39,39. Hún átti fyrir 39,03 metra.

Fyrri greinAlgjört hrun hjá Selfyssingum
Næsta greinSigmundur setti fimm HSK met