Dagur og Sindri settu Íslandsmet

Dagur Fannar Einarsson, Selfossi og Sindri Freyr Seim Sigurðsson, Heklu, settu báðir Íslandsmet í sínum aldursflokkum í 300 m hlaupi á frjálsíþróttamóti í Hafnarfirði í gær.

Dagur Fannar setti glæsilegt aldursflokkamet í flokki 15 ára pilta er hann hljóp á tímanum 37,95 sek. Fyrra metið var 38,57 sek og var það í eigu Kristins Héðinssonar, ÍR. Dagur bætti að sjálfsögðu HSK metið líka en það átti hann sjálfur, rúmlega mánaðargamalt met 38,76 sek.

Sindri setti glæsilegt aldursflokkamet í flokki 14 ára pilta er hann hljóp 300 metrana á tímanum 38,45 sekúndum. Fyrra metið var 39,02 sek og var það í eigu Hinriks Snæs Steinssonar, FH. Sindri bætti einnig eigið HSK met, en hann hljóp í nóvember á 39,56 og var því að bæta sig um rúma sekúndu.

Nokkrir dagar eru síðan Sindri sló Íslandsmetið í sínum flokki í 200 m hlaupi og sama dag bætti Dagur Fannar HSK metið í 400 m hlaupi. Þeir voru svo báðir í boðhlaupssveit HSK sem bætti Íslandsmetið í 15 ára flokki í byrjun desembermánaðar.

Fyrri greinFjórir búðarþjófar handteknir
Næsta greinSæbjörg Eva dúxaði í FSu