Dagur Fannar setti tvö héraðsmet í 60 m hlaupi

Dagur Fannar setti 21 einstaklingsmet og átti hlut í átta boðhlaupsmetum á árinu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Dagur Fannar Einarsson, Umf. Selfoss, setti tvö HSK met á héraðsmóti unglinga í frjálsum íþróttum í Kaplakrika í Hafnarfirði þann 13. janúar síðastliðinn.
 
Dagur Fannar bætti HSK metin í 60 metra grindahlaupi í flokkum 16-17 ára og 18-19 ára, en hann hljóp á 8,55 sek. Styrmir Dan Steinunnarson, Þór Þ., átti gamla metið, 8,57 sek sett árið 2015.
 
Dagur Fannar sigraði í fimm greinum á unglingamóti HSK í flokki 16-17 ára; 800 m hlaupi, 60 m grindahlaupi, hástökki, langstökki og kúluvarpi.
 
Í flokki 15 ára pilta sigraði Sebastian Þór Bjarnason, Umf. Selfoss, í fjórum greinum; 60 m hlaupi, 60 m grindahlaupi, langstökki og kúluvarpi.
 
Birta Sigurborg Úlfarsdóttir, Dímon, sigraði einnig í fjórum greinum; 60 m hlaupi, 800 m hlaupi, 60 m grindahlaupi og langstökki.

Umf. Selfoss sigraði stigakeppni unglingamótsins með 150 stig en í öðru sæti varð Umf. Hrunamanna með 66 stig og Umf. Biskupstungna í því þriðja með 38,5 stig.

Meistaramót Íslands um helgina

Næsta verkefni Dags Fannars, Sebastians, Birtu og félaga þeirra í liði HSK/Selfoss er Meistaramót Íslands 15-22 ára sem fer fram nú um helgina í Kaplakrika. HSK/Selfoss sigraði í fyrra í stigakeppni félaganna á þessu móti og má búast við sterkri og spennandi keppni um helgina.
Fyrri greinBúið að opna Hellisheiði
Næsta greinStórt tap gegn Stólunum