Dagur Fannar og Sindri með HSK met í 200 m hlaupi

Sindri, Dagur og Jakub bættu allir sinn árangur í 200 m hlaupi á laugardaginn. Ljósmynd/HSK

Dagur Fannar Einarsson, Umf. Selfoss, stórbætti sinn besta árangur í 200 m hlaupi á Origo móti FH sem haldið var í Kaplakrika síðastliðinn laugardag.

Dagur Fannar átti best 23,56 sek en hljóp á 22,80 sek sem er stórkostleg bæting og sigraði hann auk þess í hlaupinu. Hann bætti sjö ára gamalt HSK met bróður síns, Haraldar Einarssonar, frá árinu 2013 sem var 22,90 sek auk þess sem þessi árangur er HSK met í flokki 18-19 ára og 20-22 ára.  

Sindri Freyr Seim Sigurðsson, Umf. Heklu, varð annar í 200 m hlaupinu og bætti rúmlega mánaðargamalt HSK met sitt í flokki 16-17 ára, hann hljóp á 22,91 sek. Gamla metið hans var 23,09 sek.

Fleiri sunnlenskir kappar voru að bæta árangur sinn en Jakub Tomasz Sidor, Umf. Selfoss, hljóp 200m hlaupið í fyrsta sinn undir 25 sekúndur þegar hann bætti sig með því að hlaupa á 24, 97 sek.  

Á sama móti sigraði Eva María Baldursdóttir Selfossi hástökk kvenna með því að vippa sér yfir 1,70 m. 

Næsta verkefni frjálsíþróttafólks er Bikarkeppni FRÍ sem fer fram í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal um næstu helgi. Fullorðnir keppa á laugardag en bikarkeppni 15 ára og yngri fer fram á sama stað á sunnudag.

Fyrri greinHörkuleikur gegn toppliðinu
Næsta greinVara við snjóflóðahættu í Ingólfsfjalli