Dagur Fannar Íslandsmeistari í sjöþraut

Dagur Fannar Einarsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Dagur Fannar Einarsson, Umf. Selfoss, varð í dag Íslandsmeistari í sjöþraut pilta 16-17 ára á Meistaramóti Íslands í fjölþrautum í Laugardalshöllinni.

Dagur Fannar sigraði með 4.520 stig og bætti þar með HSK-met pilta 16-17 ára í þrautinni. Gamla metið átti Styrmir Dan Steinunnarson, Þór Þ., 4.275 stig.

Dagur Fannar sló annað met í dag en í lokagrein þrautarinnar, 1.000 m hlaupi, bætti hann eigið HSK met um tæpar tvær sekúndur þegar hann hljóp á 2:48,65 mín. Gamla metið var 2:50,50 mín.

Í kúluvarpi bætti Dagur Fannar sinn besta árangur með 5 kg kúlunni og kastaði henni 12,86 m. Annar árangur í sjöþrautinni hjá honum var 7,43 sek í 60 m hlaupi, 6,07 m í langstökki, 1,73 m í hástökki, 8,84 sek í 60 m grindahlaupi og 3,15 m í stangarstökki.

Birta með silfur í fimmtarþraut
Birta Sigurborg Úlfarsdóttir, Dímoni, varð í 2. sæti í fimmtarþraut í flokki 16-17 ára stúlkna á mótinu um helgina. Birta fékk 2.743 stig og var nálægt HSK meti Evu Lindar Elíasdóttur frá árinu 2009, en það er 2.887 stig.

Birta hljóp 60 m grindahlaup á 10,45 sek, stökk 1,42 m í hástökki, kastaði kúlunni 9,00 m, stökk 4,58 m í langstökki og hljóp 800 m hlaup á 2:32,08 mín.

Leiðrétting: Í upphaflegu fréttinni var sagt að Birta Sigurborg hefði sett HSK met í fimmtarþrautinni en svo var ekki og er beðist velvirðingar á mistökunum.

Birta Sigurborg Úlfarsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinFasteignamarkaðurinn svipaður og í janúar í fyrra
Næsta greinBikartvíhöfði í Iðu í kvöld