Dagný varð önnur í kjörinu

Rangæingurinn Dagný Brynjarsdóttir varð önnur í kjörinu um besta leikmann háskólafótboltans í Bandaríkjunum en Hermann Trophy verðlaunin voru afhent aðfaranótt laugardags.

„Hermann Trophy er stærsta viðurkenning sem knattspyrnumaður getur unnið og síðan ég kom til Bandaríkjanna þá hefur mig langað til að vinna þessi verðlaun,“ sagði Dagný létt í lund í viðtali við sunnlenska.is eftir að hún var kjörin Sunnlendingur ársins á dögunum.

Verðlaunin komu þó ekki í hennar hlut heldur var það bandaríska landsliðskonan Morgan Brian sem vann þau annað árið í röð.

Dagný var fyrirliði liðs Florida State háskólans, FSU Seminoles, á liðnu tímabili en liðið vann alla titla sem í boði voru og sjálf sópaði Dagný til sín tilnefningum og viðurkenningum í lok móts. Hún var valin í öll úrvalslið ársins og bæði valin besti sóknarmaður deildarinnar og besti leikmaður úrslitakeppninnar í háskólaboltanum.

Fyrri greinBasti bjargaði stigi
Næsta greinMörg útköll vegna veðurs og ófærðar