Dagný valin íþróttamaður HSK

Knattspyrnukonan Dagný Brynjarsdóttir, Umf. Selfoss, var valin íþróttamaður Héraðssambandsins Skarphéðins árið 2014 úr hópi tilnefndra íþróttamanna.

Valinu var lýst á héraðsþingi HSK á Flúðum um síðustu helgi en sérstök valnefnd velur íþróttamann ársins hjá HSK.

Dagný er annar knattspyrnumaðurinn sem hlýtur þessa nafnbót en í fyrra var Guðmunda Brynja Óladóttir valin íþróttamaður HSK 2013.

Dagný var lykilleikmaður í úrvalsdeildarliði Selfoss á síðustu leiktíð. Hún skoraði 9 mörk fyrir liðið í 14 leikjum og átti fast sæti í íslenska landsliðinu. Dagný hefur leikið 48 landsleiki með A landsliði Íslands og skorað 11 mörk í þeim. Auk þess á hún að baki 27 landsleiki með U17, U19 og U23 landsliðunum. Dagný hélt til Bandaríkjanna í ágúst og vann þar tvo titla með Florida State í bandaríska haskólaboltanum. Hún var fyrirliði liðsins og skoraði 16 mörk í 21 leik með liðinu. Hún var einnig valin besti leikmaður ársins hjá Soccer America og lenti í öðru sæti yfir virtustu verðlaun háskólaíþrótta, Herman Trophy.

Fyrri greinKarl sæmdur heiðurskrossi ÍSÍ
Næsta greinFjölgun um eina bekkjardeild á ári næstu þrjú árin