Dagný til liðs við West Ham

Ljósmynd/whufc.com

Knattspyrnukonan Dagný Brynjarsdóttir er gengin til lið við enska úrvalsdeildarfélagið West Ham. Félagið staðfesti þetta á heimasíðu sinni í kvöld.

Það er gaman að segja frá því að Dagný hefur alla tíð verið stuðningsmaður West Ham og hún segir að það sé draumur að ganga til liðs við félagið.

„Það er draumur að ganga til liðs við félag sem ég hef stutt alla mína ævi. Liðsfélagarnir og starfsfólkið hafa tekið mjög vel á móti mér og mér líður strax eins og heima hjá mér,“ segir Dagný.

Hún er fyrsti leikmaðurinn sem knattspyrnustjórinn Olli Harder fær til liðs við félagið eftir að hann tók við sem knattspyrnustjóri í desember. Hann segist ánægður með að fá Dagnýju um borð.

„Hún passar fullkomlega við þau gildi og menningu sem við erum að byrja að koma á innan leikmannahópsins. Sem aðdáandi West Ham hefur hún líka innbyggða ástríðu og skilning á félaginu sem er mikils virði fyrir okkur,“ segir Harder.

Dagný kemur til West Ham frá Selfossi en áður hefur hún leikið með Portland Thorns, Bayern Munchen og Val.

Dagný hefur alla tíð verið stuðningsmaður West Ham.

Fyrri greinHrossahólf víða orðin vatnslaus
Næsta greinÞórsarar völtuðu yfir KR