Dagný skoraði sigurmark Íslands

Dagný Brynjarsdóttir skoraði eina mark leiksins þegar Ísland vann 0-1 sigur á Ísrael á útivelli í kvöld í undankeppni Heimsmeistaramótsins í knattspyrnu.

Liðin mættust á Ramat Gan vellinum í Tel Aviv.

Íslenska liðið stjórnaði leiknum frá upphafi, eins og búist hafði verið við, en heimastúlkur lágu vel til baka. Ísland átti margar lofandi sóknir í fyrri hálfleik sem var þó markalaus.

Síðari hálfleikur þróaðist á sama hátt og sá fyrri þar sem íslenska liðið réð ferðinni. Eina mark leiksins kom eftir klukkutíma leik en Dagný skoraði þá úr miðjum vítateignum eftir góðan undirbúning frá Fanndísi Friðriksdóttur.

Eftir markið kom ákveðin ró yfir leikinn, ísraelska liðið færði sig framar á völlinn en olli íslensku vörninni engum vandræðum. Ísland fékk fleiri færi en á loka andartökum leiksins skallaði Dagný boltann í þverslána. Örstuttu síðar var flautað til leiksloka og íslenska liðið fagnaði sigri sem krafðist mikillar þolinmæði hjá íslenska liðinu.

Hólmfríður Magnúsdóttir kom inná á 78. mínútu en Guðmunda Brynja Óladóttir var ekki í átján manna leikmannahópi liðsins.

Næsti leikur Íslands er á fimmtudaginn þegar leikið verður gegn Möltu í Valetta. Malta tapaði stórt fyrir Sviss í dag, 11 – 0 en þær svissnesku eru með fullt hús stiga eftir fimm leiki í efsta sæti riðilsins. Ísland er svo í öðru sæti með sex stig eins og Ísrael. Hópurinn heldur frá Tel Aviv í nótt þar sem leiðin liggur til Möltu.

Fyrri grein„Gæti orðið okkar Höfði“
Næsta greinTíu Ægismenn sigruðu – KFR tapaði