Dagný skoraði sigurmark Bayern

Dagný Brynjarsdóttir skoraði eina mark leiksins þegar Bayern München lagði Turbine Potsdam í stórleik kvenna-bundesligunnar í Þýskalandi í kvöld.

Eins og von var á var um hörkuleik að ræða. Fyrri hálfleikur var markalaus en bæði lið fengu ágæt færi.

Bayern byrjaði betur í síðari hálfleik og strax á 49. mínútu átti Dagný skot rétt yfir markið. Sigurmark leiksins kom hins vegar á 75. mínútu. Eftir hamagang í vítateig Potsdam sendi Vivianne Miedema boltann á Dagnýju sem skoraði örugglega af stuttu færi. Fyrsta mark hennar í Bundesligunni.

Bayern var líklegra til að bæta við mörkum undir lokin og uppskar að lokum sanngjarnan sigur.

Með sigrinum fór Bayern upp í 2. sæti deildarinnar með 44 stig og er stigi á eftir Wolfsburg. FFC Frankfurt er í 3. sæti með 43 stig og Turbine Potsdam er í 4. sætinu með 40 stig.

Fyrri greinBjörn kosinn formaður
Næsta greinEitt – núll Tindastóll