Dagný skoraði tvö í mögnuðum sigri Íslands

Dagný Brynjarsdóttir skoraði tvö mörk þegar íslenska landsliðið í knattspyrnu vann frækinn sigur á Þýskalandi í undankeppni HM 2019 í Þýskalandi í dag.

„Þetta var geðveikt, við vorum ógeðslega flottar og spiluðum hrikalega vel varnarlega og sköpuðum okkur mikið sóknarlega,“ sagði Dagný í samtali við fotbolti.net eftir leik.

„Það var þungu fargi af mér létt. Þetta voru fyrstu fótboltamörkin sem ég skora á árinu, bæði með landsliðinu og Portland. Þetta var góð tilfinning ég viðurkenni það.”

Þýskaland hefur verið yfirburðalið í kvennaknattspyrnunni síðustu áratugi en fyrir leikinn í dag hafði liðið unnið síðustu 60 leiki sína í undankeppni fyrir stórmót og gert eitt jafntefli. Síðasta tap þýska liðsins í undankeppni var árið 1998.

Dagný kom Íslandi í 0-1 á 15. mínútu en Þjóðverjar jöfnuðu undir lok fyrri hálfleiks. Ísland komst svo í 1-3 á upphafsmínútum síðari hálfleiks. Elín Metta Jensen skoraði á 47. mínútu eftir undirbúning frá Dagnýju og Dagný bætti öðru marki við tíu mínútum síðar. Lokamínúturnar voru æsispennandi þar sem Þýskaland pressaði stíft og náði að minnka muninn í 2-3 á 88. mínútu.

Ísland er í efsta sæti riðilsins með 6 stig, eins og Þýskaland, en Ísland hefur betra markahlutfall.

Fyrri greinHafna ósk um hærri vindmyllur
Næsta greinJörð skelfur í Flóanum