Dagný og Guðmunda í landsliðshópnum

Dagný Brynjarsdóttir og Guðmunda Brynja Ólafsdóttir, leikmenn Selfoss, voru báðar valdar í A-landslið kvenna í knattspyrnu sem mætir Ísrael og Serbíu í undankeppni HM í september.

Þetta eru síðustu leikir Íslands í þessari undankeppni og fara fram á Laugardalsvelli, 13. og 17. september. Ísland er í þriðja sæti riðilsins, á eftir Sviss og Danmörku en Serbía og Ísrael eru í fjórða og fimmta sætinu. Ísland á ekki lengur möguleika á sæti á HM.

Athygli vekur að Rangæingurinn Hólmfríður Magnúsdóttir, sem leikur með Avaldsnes í Noregi, var ekki valin í landsliðið að þessu sinni en Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari, sagði í viðtali við fotbolti.net að hennar tími með landsliðinu sé ekki liðinn. Hins vegar sé markmiðið með leikjunum tveimur að „fókusera á næstu keppni og þróa leik liðsins en þetta sé rétti tímapunkturinn til að horfa fram í tímann.“

Dagný hefur leikið 46 A-landsleiki og skorað í þeim átta mörk en Guðmunda á þrjá A-landsleiki að baki og hefur skorað eitt mark.

Fyrri greinValur og Stjarnan unnu sína leiki
Næsta greinVilja frían leikskóla fyrir elstu börnin