Dagný (ekki) með þrennu í stórsigri Hamars

Dagný Rún Gísladóttir, fyrirliði Hamars. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar vann stórsigur á Knattspyrnufélagi Miðbæjar í 2. deild kvenna í knattspyrnu þegar liðin mættust á Grýluvelli í kvöld.

Hamar var mun sterkari aðilinn í leiknum og Brynhildur Sif Viktorsdóttir kom þeim yfir á 21. mínútu. Aðeins mínútu síðar kom Íris Sverrisdóttir þeim í 2-0. Þannig stóðu leikar í hálfleik en Hamar átti nokkur skot í stöng og slá auk þess sem þær áttu að fá vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks.

Hamarskonur voru þó ekki að svekkja sig á því heldur mættu sterkar inn í seinni hálfleikinn. Íris tvöfaldaði forystuna á 63. mínútu og síðan var komið að fyrirliðanum, Dagnýju Rún Gísladóttur, sem skoraði tvö mörk á þremur mínútum um miðjan seinni hálfleikinn og staðan var skyndilega orðin 5-0. Leikurinn var ekki búinn því Brynhildur Sif innsiglaði 6-0 sigur Hamars í uppbótartímanum.

Þetta var fyrsti sigur Hamars í sumar, sem situr nú í 7. sæti deildarinnar með 3 stig.

UPPFÆRT: Í leikskýrslu á vef KSÍ voru markaskorarar rangt skráðir og meðal annars kom fram að Dagný Rún hefði skorað þrennu. Það hefur nú verið leiðrétt.

Fyrri greinSelfyssingar söltuðu Hamarsmenn
Næsta greinÆgir náði í stig fyrir norðan – Uppsveitir steinlágu