Dagný María Norðurlandameistari

Dagný María Pétursdóttir, Umf. Selfoss, varð Norðurlandameistari í -73 kg flokki í taekwondo. Mótið var haldið í Vantaa í Finnlandi fyrir rúmri viku og sendi taekwondodeild Selfoss sjö keppendur til leiks sem náðu eftirtektarverðum árangri.

Dagný María vann fyrsta bardagann 12-10 og úrslitabardagann 10-0.

Ingibjörg Erla Grétarsdóttir varð öðru sæti í -62 kg flokki. Hún vann fyrsta bardagann sinn örugglega 26-9, í undanúrslitum vann Ingibjörg Erla 18-8 en í úrslitum tapaði hún eftir gullstigs lotu, sem er gripið til ef bardaginn er jafn á stigum eftir þrjár lotur.

Natan Hugi Hjaltason varð öðru sæti í -55 kg flokki unglinga. Hann vann fyrsta bardagann 46-33 og í undanúrslitum 24-12. Úrslitabardaganum tapaði Natan Hugi.

Þorsteinn Ragnar Guðnason varð í öðru sæti í hópapoomsae unglinga með tveimur öðrum iðkendum úr poomsae landsliði Íslands.

Halldór Gunnar Þorsteinsson hafnaði í þriðja sæti og fór bardaginn hans 8-13.

Daníel Jens Pétursson vann einn bardaga 25-5 en tapaði næsta 13-20 og var úr leik. Þá keppti Jóhann Cesar Helgason einn bardaga sem tapaðist 3-22.


Keppendur Selfoss ásamt þjálfurum og liðstjórn.
Ljósmyndir: Umf. Selfoss/Daníel Jens og Sveinn Speight

Fyrri greinGuðmundur skoraði sigurmarkið gegn Rússum
Næsta greinBrons hjá Agli á Opna skoska